Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 471. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1120  —  471. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Minni hlutinn hefur miklar efasemdir um málið og gerir margvíslegar athugasemdir við það. Sú fyrsta varðar þá leið sem lögð er til í frumvarpinu um að stofna hlutafélag um starfsemi sem að öllu leyti á að vera í höndum hins opinbera. Engin ástæða er til að koma opinberri starfsemi, m.a. stjórnsýslu, undir hlutafélagaform. Nær væri að starfsemin væri á hendi stofnunar sem væri B-hluta fyrirtæki.
    Minni hlutinn gerir sérstaklega athugasemd við 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins þar sem félaginu er heimilað að gera „hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt“ og vísar í þessu efni í umsögn Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna um öryggisviðbúnað á vellinum og telur að umfjöllun meiri hlutans í nefndaráliti um þetta efni sé ekki nægileg trygging fyrir því að öryggismál verði áfram með sama hætti og verið hefur. Í þessu efni má einnig benda á umsögn Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli sem leggur til að sérstaklega verði í lögunum kveðið á um starfrækslu slökkviliðs á flugvellinum, en ekki er tekið á því atriði í tillögum meiri hlutans.
    Telur minni hlutinn að skipulagsmál séu ekki í eðlilegum farvegi en flugvallarsvæðið er skilgreint sem sérstakt skipulagssvæði og þannig er stjórnsýslu viðkomandi sveitarfélaga ýtt til hliðar og hið lýðræðislega umboð, sem sveitarstjórnir hafa frá íbúum til að bera pólitíska ábyrgð, m.a. á skipulagsmálum, verður að engu. Telur minni hlutinn það óviðunandi og með ákvæðum um að ákvarðanir skipulagsnefndar séu endanlegar á sveitarstjórnarstigi er verið að færa lýðræðislegt vald til stjórnskipaðrar nefndar þvert á venjulega stjórnskipun. Breytingartillaga meiri hluta um skipan skipulagsnefndar er þó vissulega til bóta, enda gerði upphaflegt frumvarp ráð fyrir að Skipulagsstofnun ætti bæði aðild að nefndinni en enn fremur kæmu skipulagsákvarðanir nefndarinnar til stofnunarinnar og var augljóst að slíkt fyrirkomulag gat ekki staðist. Minni hlutinn telur þó að það breyti ekki neinu um gagnrýni á skipan nefndarinnar. Sömu sögu er að segja um ákvæði 9. gr. sem felur hinu opinbera hlutafélagi skyldur sveitarstjórnar samkvæmt vatnalögum (holræsi), lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um gatnagerðargjald. Verður ekki annað séð en þetta fyrirkomulag sé í hrópandi mótsögn við lýðræðislega stjórnarhætti. Staða þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli er einnig óljós og í raun óviðunandi að þau verði komin undir ákvörðunum hlutafélags um mikilvæg hagsmunamál sín, svo sem um fasteignagjöld, sbr. umsögn Sandgerðisbæjar.
    Þá leggur minni hlutinn áherslu á að ákvæði um að sveitarfélög sem gera svæðisskipulag verði bundin af aðalskipulagi svæðisins skjóta skökku við og þýða í raun að rétthæð skipulagsáætlana er snúið við og telur að ákvæðið fari í bága við almenna reglu í skipulagslögum.
    Minni hlutinn telur nauðsynlegt að taka fram að þegar ákveðið var að stofna hlutafélag um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarrekstur Flugmálastjórnar Íslands árið 2006 hafði þáverandi stjórnarandstaða (Samfylkingin, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn) efasemdir um að hlutafélagaformið væri hið rétta og vildi láta skoða fleiri leiðir. Enginn vilji hefur nú verið til að skoða önnur rekstrarform, svo sem B-hluta ríkisfyrirtæki. Telur minni hlutinn að brýnt hefði verið að fá ríkisendurskoðanda til fundar við nefndina til að fjalla um kosti og galla opinberra hlutafélaga og þá reynslu sem þegar hefur fengist af slíku rekstrarformi.
    Við breytingu á rekstrarformi hefðbundinna ríkisstofnana í (opinbert) hlutafélag er ævinlega hætta á að réttindi starfsmanna skerðist að meira eða minna leyti. Ýmis dæmi eru um slíkt. Stéttarfélög starfsmanna hafa einmitt varað við þessu. Þess ber þó að geta að meiri hlutinn hefur í breytingartillögum sínum komið til móts við sjónarmið starfsmanna að því er varðar lífeyrismál.
    Með hlutafélagaformi skapast réttaróvissa um gildi stjórnsýslu- og upplýsingalaga og um réttindi starfsmanna. Enda þótt tiltekið sé í greinargerð að ákvæði stjórnsýslu- og upplýsingalaga gildi að því er varðar stjórnsýsluhlutverk félagsins, þá gilda þau almennt ekki í hlutafélögum. Ef ætlunin er að láta þau ná til opinbers hlutafélags er það mat minni hlutans að slík ákvæði eigi að lögfesta með beinum hætti og bendir á í því sambandi að umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um upplýsingalög í opinberu hlutafélagi og þar kemur fram að stjórnendur opinberra hlutafélaga virðast ekki í öllum tilvikum gæta þess nægilega að virða upplýsingalög (t.d. mál 5103/2007). Það er einnig nauðsynlegt til að tryggja réttaröryggi borgaranna.
    Þá er vert að vekja athygli á að í hinu nýja hlutafélagi verður opinberri stjórnsýslu og samkeppnisrekstri blandað saman sem hlýtur að geta valdið vanhæfi stjórnsýsluhlutans í tilteknum tilvikum. Samkeppniseftirlitið bendir í sinni umsögn á að fyrirkomulagið muni líklega valda samkeppnislegri mismunun.
    Minni hlutinn telur að fjölmargir þættir málsins séu í raun enn vanreifaðir og með vísan til þess sem að ofan greinir er lagt til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Verði ekki fallist á frávísun er þess óskað að málið gangi að nýju til nefndar og ríkisendurskoðandi kallaður fyrir nefndina til umræðu um opinber hlutafélög. Jafnframt er óskað eftir að skipulagsstjóri komi fyrir nefndina vegna ákvæða um meðferð skipulagsmála.

Alþingi, 26. maí 2008.



Árni Þór Sigurðsson.





Fylgiskjal I.


Umsögn frá Skipulagsstofnun.
(7. apríl 2008.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Umsögn frá Sandgerðisbæ.
(5. maí 2008.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.


Umsögn frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
(29. apríl 2008.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal IV.


Umsögn frá Félagi íslenskra flugumferðarstjóra.
(9. apríl 2008.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal V.


Umsögn frá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvelli.
(8. apríl 2008.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VI.


Umsögn frá Samkeppniseftirlitinu.
(22. apríl 2008.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.